news

20 ára afmæli Króks

12. 02. 2021

Afmæli leikskólans var 5. febrúar síðastliðinn. Þann dag varð Heilsuleikskólinn Krókur 20 ára. Skipulögð var mikil hátíð yfir alla vikuna. Afmælisvikan hófst hjá okkur á að Leikhópurinn Lotta kom til okkar með skemmtilegt leikrit um Úlfinn, Rauðhettu og Grísina. Allir skemmtu sér konunglega og höfðu bæði börn og kennarar mikla ánægju af. Á fimmtudeginum fórum við í Friðargönguna okkar sem við höfum haldið árlega en þá oftast í desember. Í ár ákváðum við að tengja gönguna afmælisvikunni okkar sem og Rökkurró. Áður en farið var af stað í gönguna leituðu börnin á útisvæðinu okkar að endurskinsmerkjum sem búið var að fela. Börnin notuðu vasaljósin sín til að leita að sínu endurskinsmerki. Slysavarnarfélagið Þórkatla gaf okkur endurskinsmerkin. Mikill spenningur og gleði fylgdi þessari leit. Á föstudeginum var afmælisdagurinn sjálfur. Við komum saman á sal og sungum afmælissönginn og blésum á afmæliskertin. Eftir það höfðum við flæði um leikskólann þar sem hægt var að fara á milli allra deilda og ýmsar leikstöðvar voru í boði.Áhersla var lögð á að hafa sýnilega stærðfræði-og vísindaleiki því Dagur stærðfræðinnar er 7. febrúar ár hvert. Í flæðinu fóru börn og kennarar um leikskólann og fundu sér stöð sem þau höfðu áhuga á að skoða, líkt og kubba, ljósaborð, vatn, slím, leir, segla og margt fleira spennandi.Í síðdegishressingunni fengu allir að bragða á dýrindis afmælisköku sem allir voru mjög spenntir að fá.

© 2016 - Karellen