news

Afsláttur af leikskólagjöldum og lengra frí hjá starfsfólki

11. 10. 2019

Grindavíkurbær hefur ákveðið að bjóða foreldrum leikskólabarna afslátt af leikskólagjöldum í desember og starfsfólki lengra jólafrí. Er þetta liður í því að bæta starfsumhverfi leikskólanna.

Nú þegar eru margir foreldrar sem kjósa að nýta ekki dagana milli jóla og nýárs í vistun en eru þegar að borga fyrir þá. Ákveðið hefur verið að bjóða upp á að fella niður gjaldið hjá þeim sem ekki þurfa að nýta þessa daga.

Dagana milli hátíðanna verður því lágmarks starfssemi í gangi í leikskólum Grindavíkurbæjar. Einhverjum deildum verður lokað og það verður færra starfsfólk í húsi því vilji bæjarins er að gefa starfsfólki leikskólanna tækifæri til að eiga lengra jólafrí.

Ef foreldri þarf leikskólavistun þessa daga milli hátíðanna, þá þarf að láta leikskólastjóra vita af því fyrir 15. nóvember með tölvupósti. Að öðrum kosti er gert ráð fyrir að barnið verið í jólafríi frá jólum og fram á nýtt ár.

Vonar bæjarráð Grindavíkurbæjar að með þessu móti gefist frekara tækifæri til jákvæðrar samveru yfir hátíðirnar fyrir fjölskyldur barnanna og starfsfólks.

© 2016 - Karellen