news

Mannréttindadagur barna/Dagur barnasáttmálans

21. 12. 2017

Þann 15. mars 2016 var samþykkt á alþingi að 20. nóvember ár hvert skuli helgaður fræðslu um mannréttindi barna, en þá er afmælisdagur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þennan dag árið 1989. Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims og kveður á um þau réttindi sem öll börn eiga að njóta. Lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla, aðalnámskrár skólastiganna og grunnþættir menntunar eiga jafnframt að tryggja börnum þessi réttindi og vera samhljóma barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Öll börn, óháð stöðu þeirra, skulu njóta þeirra mannréttinda sem kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ekki má mismuna börnum hvað þau réttindi varðar. Mikilvægt er að þeir sem vinna með börnum þekki Barnasáttmálann og mannréttindi barna. Það er ekki síður mikilvægt að börnin sjálf þekki réttindi sín. Það styrkir þau og eflir sem einstaklinga sem og hópinn í heild.

Heilsuleikskólinn Krókur hélt upp á dag barnasáttmálans mánudaginn 20. nóvember. Elstu börn leikskólans Stjörnuhópur fóru í heimsókn í rauða krossinn, þar sem Brynja tók á móti þeim fræddi þau um störf rauða krossins ásamt því sem börnin fengu að skoða sjúkrabílinn. Í leikskólanum var Barnasáttmálinn hengdur upp á veggi í máli og myndum. Börnin voru spurð „hverju ráða börn eða hverju ræður þú?“ og voru svör þeirra hengd upp í fataherbergi til fróðleiks og skemmtunar. Bókin Rúnar góði var lesin og góðar umræður og fræðsla um barnasáttmálann og réttindi barna fóru fram. Páll Valur Björnsson grunnskólakennari og fyrrverandi alþingismaður, sem kom þessum degi á í skólum landsins, kíkti til okkar í heimsókn.

Grunnþættirnir eins og þeir birtast í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru vernd, umönnun og þátttaka:

Vernd: Í Barnasáttmálanum er kveðið á um vernd grundvallarmannréttinda barna, svo sem til lífs og þroska. Þau eiga jafnframt rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi; líkamlegu, andlegu og kynferðislegu, gegn vanrækslu og einelti. Einelti getur átt rætur sínar að rekja allt niður í leikskóla. Birtingarmyndin getur verið að barn sé útilokað frá leik, eða sett er út á útlit eða athafnir þess. Mikilvægt er að koma í veg fyrir slíkt.

Umönnun: Öllum börnum á að tryggja velferð á sviði menntunar, heilbrigðis og félagsmála. Foreldrar bera meginábyrgð á uppeldi og umönnun barna sinna en allir þeir sem vinna með börnum eða að málefnum þeirra bera einnig ábyrgð svo og stjórnvöld.

Þátttaka: Öll börn eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum er þau varða og taka ber tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Jafnframt er mikilvægt að börnum sé leiðbeint við að setja sig í spor annarra, taka tillit og hlusta á aðra.

© 2016 - Karellen