news

Mynduð friðarsúla í friðargöngu Króks

22. 12. 2017

Þrátt fyrir að hin árlega friðarganga skólanna í Grindavík hefði verið lögð niður ákvað starfsfólk í Heilsuleikskólanum Króki að viðhalda þessum dásamlega viðburði og ganga til friðar með börnum, foreldrum og starfsfólki. Friðargangan var í upphafi hugmynd starfsfólks á Króki sem störtuðu henni 2009 í miðri þróunarvinnu samskiptastefnunnar Rósemd og umhyggja. Eftir hrun var mjög mikilvægt fyrir skólastofnanir að skapa andrúmsloft friðar og kærleiks og aðstoða nemendur til að takast á við margvíslega fylgikvilla þessa erfiða tíma. Starfsfólk Króks langaði á þessum tíma að gefa af sér og ásamt því að fara friðargöngu var m.a. boðið upp á viðburð í skólanum fyrir alla bæjarbúa. Boðið var upp á sýningu á skólastarfinu, veitingar, spjall og fyrirlestur um náungakærleik, umhyggju og aðstoð, sjá frétt.

Í friðargöngunni í ár gengum við frá leikskólanum yfir á Landsbankalóðina þar sem börn, foreldrar og kennarar sungu saman nokkur lög, gerðu hugleiðslu og mynduðu að lokum friðarsúlu með því að beina vasaljósum upp í himininn. Boðið var upp á nýbakaðar kringlur og heitt súkkulaði með rjóma eftir gönguna. Einstaklega gaman var að sjá hversu margir foreldrar gefa sér ávallt tíma til að taka þátt.

Markmið göngunnar er að efla samkennd og boða jákvæðni, gleði og kærleika meðal okkar og náðum við því markmiði svo sannarlega því einstakt andrúmsloft skapaðist á þessum dásamlega viðburði eins og endranær.

Gleðileg friðarjól



© 2016 - Karellen