news

Skipulagsdagurinn 15. september var bæði gleðiríkur og fræðandi.

17. 09. 2020

Við byrjuðum daginn á að hlusta á Önnu Lóu Ólafsdóttur sem heldur úti síðunni Hamingjuhornið og gaf nýlega út bókina Það sem ég hef lært. Hún fræddi okkur um hvernig við getum viðhaldið hamingju og gleði í starfsmannahópnum sem er að okkar mati það allra mikilvægasta því það hefur áhrif á skólamenninguna sem hefur bein áhrif á líðan barna og getu þeirra til að tileinka sér nám.

Sesselja Traustadóttir frá Hjólafærni færði skólanum brons hjólavottun fyrir að taka fyrsta skrefið í að verða hjólavænn leikskóli með það að markmiði að vinna að bættum ferðavenjum í og úr skólanum. Sjá frekari frétt um það hér.

Góður tími fór svo í að vinna í stefnu og starfsháttum skólans þar sem teymin rifjuðu upp starfsaðferðir og fóru yfir náms- og leikefni sem unnið er með í skólanum eins og t.d. málræktarverkefni, jákvæðar samskiptaleiðir, hugleiðslur, umhverfismennt, stærðfræði og vísindi. Að lokum funduðu deildir um sameiginleg og einstök málefni.

Markmið skipulagsdaga er að sinna starfsþróun og nýbreytni í skólanum ásamt því að viðhalda þeim starfsaðferðum sem skólinn hefur sett sér og tryggja að allir sem í skólanum starfa þekki starfsaðferðir og stefnu skólans og gangi í takt.Unnur umhverfisungi og annað námsefni sem tengist umhverfisstefnu leikskólans


Blær vináttuverkefni, hluti af námsefni Rósemdar og umhyggju, samskiptastefnu leikskólans


Dæmi um málörvunar- og stærðfræði/vísindaverkefni sem unnin eru með börnunum


Hundurinn Lubbi úr bókinni Lubbi finnur málbein, sem kennir okkur málhljóðin okkar, ýmsan orðaforða og hljóð stafanna


Slökunarefni sem er hluti af Rósemd og umhyggju og er t.d. notað í kyrrðarstundum ásamt jóga og núvitund


© 2016 - Karellen