news

Spennandi þróunarverkefni á Króki næsta vetur

25. 06. 2018

Á dögunum fékk Heilsuleikskólinn Krókur úthlutað 2. 5 milljónum króna úr Sprotasjóði í styrk til að vinna að verkefninu Komdu út. Samstarf um útivist og vellíðan. Sprotasjóður er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, sem styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá.

Markmið verkefnisins er að stuðla að jákvæðu og uppbyggjandi foreldrasamstarfi með velferð og vellíðan að leiðarljósi. Unnið verður að því að kynna útivist og samveru í náttúrunni sem valkost til að minnka streitu og auka vellíðan fjölskyldunnar. Við munum bjóða foreldrum að taka þátt í útinámi með börnum sínum á skólatíma og gefa þeim hugmyndir að útivist og samveru með börnum sínum í frítímum. Einnig verður boðið upp á fræðslu um mikilvægi hreyfingar og útiveru fyrir almenna heilsu og vellíðan. Hugmyndin er að kortleggja staði í nánasta umhverfi bæjarins sem börnunum finnst gaman að heimsækja og búa til hugmyndabanka með ýmsu uppbyggjandi og skemmtilegu til að gera saman.

Harpa Rakel Hallgrímsdóttir leikskólakennari verður verkefnastjóri en hún hefur unnið á Króki og einnig tekið þátt í að stýra núvitundarverkefninu Hér og nú síðustu ár, sem allir skólarnir í Grindavík eru aðilar að.

Við hlökkum mikið til að fara af stað með þetta spennandi verkefni og styrkja um leið samskipti fjölskyldunnar og leikskólans sem er einn mikilvægasti þátturinn í að skapa vellíðan meðal barnanna.

© 2016 - Karellen