news

Ung börn og snjalltæki

10. 02. 2020

Í síðustu viku fengum við ásamt öðrum leikskólum landsins sendan bæklinginn Ung börn og snjalltæki til dreifingar til foreldra. Er það SAFT teymið og Heimili og skóli sem heldur utan um þetta verkefni. Við höfum reglulega dreift bæklingnum til foreldra svo þið eigið flest að vera búin að fá hann en ef þið eigið hann ekki endilega biðjið um bækling á deild barnsins ykkar. Með bæklingnum er hægt að skapa góða og uppbyggilega umræðu um það hvernig börnin okkar kynnast tækninni og læra að nota hana á jákvæðan hátt.

Á morgun, þriðjudaginn 11. febrúar, verður Alþjóðlegi netöryggisdagurinn haldinn hátíðlegur víða um heim. Af því tilefni munum við á næstu dögum ræða við börnin á eldri deildum um hvernig er hægt að nota tæknina á jákvæðan og öruggan hátt.

Einnig verður sjónum beint að leikskólastiginu á Alþjóðlega netöryggisdaginn með fræðslukvöldi fyrir foreldra undir heitinu Ung börn og snjalltæki: grunnur að góðri byrjun. Fræðslan verður haldin í Engidalsskóla í Hafnarfirði kl.19:30 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Stefnt verður að því að streyma frá viðburðinum til þess að leyfa sem flestum að njóta. Nánari upplýsingar má finna á facebook síðu viðburðarins https://www.facebook.com/events/180378436513871/


© 2016 - Karellen