news

Jól í skókassa og aðventan

16. 12. 2021

Eins og endranær reynum við hér á Króki að skapa rólega stemningu á aðventunni. Börnin vinna að friðargjöfum sínum og við brjótum um skipulagt starf með ýmsum hætti.

26. nóvember var hið árlega Jólabíó hjá okkur. Þessi dásamlega hefð er frábær til að byrja aðventuna.

Í vikunni fyrir eru börnin búin að útbúa bíómiða sem þau svo mæta með í bíóið og eru 2 bíóstjórar sem rífa flipa af miðanum. Það er búið að gera notalegt í salnum okkar með dýnum og púðum og horfum yngri saman og eldri saman á fallega mynd sem heitir The Snowmen. Þetta skapar mjög rólega og þægilegaa stemningu í húsinu.

Myndin er aðgengileg á YouTube svo ef þið viljið eiga rólega stund með börnunum ykkar er tilvalið að horfa á hana með þeim.

7. og 8. desember fóru þrír elstu árgangarnir í heimsókn í Kvikuna. Börnin voru búin að föndra jólaskraut sem þau fengu að hengja á jólatré Kvikunnar. Í ár var endurvinnslan og náttúran nýtt og bjuggu þau til fallegt skraut úr plastlokum og könglum.

Áttu þau notalega stund og var þeim boðið uppá pipakökur og mandarínur. Stjörnuhópur fékk einnig að hitta eldri borgara og syngja með þeim.

Kvikan býður íbúum Grindavíkur að koma og eiga góða stund með börnunum sínum t.d. að spila, lita og þyggja kaffi og pipakökur og auðvitað að skoða þetta glæsilega jólatré.

Jól í skókassa

Verkefnið Jól í skókassa hefur verið í gangi hjá okkur í nokkur ár og auðvitað tókum við þátt í því í vetur en elsti árgangur leikskólans hefur séð um verkefnið. Leitað var til foreldra leikskólabarnanna um efnivið í kassana og færum við foreldrum og börnum miklar þakkir fyrir framlag sitt.

Markmið verkefnisins er að fá börn og foreldra til að gleðja börn í Úkraínu sem búa við sjúkdóma, fátækt og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Í ár afhentum við 7 fullbúna jóla-skókassa. Börnin voru búin að ganga vel frá kössunum og mála þá. Foreldrafélagið tekur þátt í þessu verkefni með okkur með því að borga sendingakostnaðinn við að senda kassana erlendis.

Meðan á þessu verkefni stóð sköpuðust mjög góðar umræður hjá börnunum og þá sérstaklega um réttindi og forréttindi, ólík fjölskyldumynstur og samkennd.


© 2016 - Karellen