English Polskie

Heilsuleikskólinn Krókur var opnaður 5. febrúar 2001 og er sjálfstætt starfandi skóli rekinn af Skólum ehf, með þjónustusamningi við Grindavíkurbæ. Í skólanum gilda í meginþáttum sömureglur og í öðrum leikskólum Grindavíkurbæjar s.s. reglur um inntöku og gjaldskrá. Í skólanum eru 5 leikstofur, alrými þar sem eru matsalur, hreyfisalur og leiksvæði, þrír fataklefar, starfsmannaaðstaða, eldhús og geymslur. Heildarrými skólans er 734 m2 og er leikrými 467 m2. Lóð skólans er 3740 m2.

Í skólanum geta dvalið um 110 börn frá 18 mánaða aldri til 6 ára og er aldurskiptur þannig að 18 mánaða – 3/4 ára eru saman á deildum og 3/4 - 6 ára saman á deildum. Boðið er upp á 4-8 tíma og að kaupa svokallaða opnun og lokun sem er 15 mínútur fyrir og yfir umsamdan vistunartíma.

Skólastarfið byggist í meginatriðum á hugmyndafræði kennismiða sem leggja áherslu á mismunandi getu og áhugasvið barnanna, umhyggju, jákvæð samskipti og vellíðan. Helstu áhersluþættir skólans eru heilsuefling, umhverfismennt, jákvæð og uppbyggjandi samskipti og frjáls leikur í anda lýðræðis.

Lögð hefur verið áhersla á að móta skólastarf sem einkennist af virðingu fyrir leik og frelsi barna til að velja sér viðfangsefni út frá þroska og áhugasviði ásamt umhyggju fyrir líðan og velferð allra í skólasamfélaginu. Jafnframt er rík áhersla lögð á jákvæðan skólabrag og lærdómssamfélag með öflugri starfsþróun sem leið til stöðugra umbóta.

Leiðarljós leikskólans hefur verið frá upphafi „Heilbrigð sál í hraustum líkama“ sem vísar í andlega, félagslega og líkamlega velferð með markvissri heilsueflingu í öllu skólasamfélaginu. Lögð er áhersla á að byggja upp hæfni starfsfólks og nemenda til að velja heilsusamlegt líferni, jákvæð og uppbyggjandi samskipti, ábyrga náttúruvernd, jafnrétti og lýðræði.

Framtíðarsýn okkar er að byggja upp lærdómssamfélag þar sem öllum líður vel og gleði ríkir. Þannig verða bæði börn og starfsfólk betur í stakk búin til að takast á við verkefni líðandi stundar og nýta þá reynslu á uppbyggilegan hátt í nútíð og framtíð.


© 2016 - Karellen