Til að börn geti viðhaldið andlegri og líkamlegri heilsu og tekist á við lífið og leikinn þurfa þau að fá nægilegan svefn og hvíld. Nægur svefn styrkir ónæmiskerfið, þar með minnka líkurnar á að barn smitist af umgangspestum og öðrum kvillum. Þegar barn sefur vex það og dafnar.

Truflun á dægursvefni, þar sem barnið er vakið áður en svefnþörfinni er að fullu mætt, getur valdið streitu. Það vaknar óútsofið og er enn þreytt, spennan í litlum líkamanum eykst yfir daginn þannig að því getur reynst erfitt að sofa að kvöldi. Uppsöfnuð streita í líkamanum veldur pirringi, hvatvísi og erfiðleikum við einbeitingu, minnisleysi og skerðir hæfni til náms. Svefnvana barn er vansælt, úthaldslítið, eirðarlaust og á þ.a.l. erfiðara með að samlagast barnahópnum.

Börn allt upp í 5 ára þurfa daglúr. Í flestum tilvikum hætta þau sjálf að sofa (flest í kringum 3ja ára aldurinn). Ef það tekur barn meira en 15-20 mínútur að sofna í daglúr eða þarf að svæfa barn sem hingað til hefur ekki þurft að svæfa gæti það verið merki um að daglúrinn sé að renna sitt skeið. Ef það er erfitt að sofna á kvöldin er gott að skoða þætti eins og t.d. svefnumhverfi, hreyfingu og skjátíma. Hjá börnum á leikskólaaldri getur stuttur orkublundur (nokkrar sekúndur jafnvel), haft meiri áhrif á getu barnsins til að sofna um kvöldið heldur en 2 klst. daglúr fyrir kl. 14 á daginn. Börn sem eru hætt að þurfa daglúr hafa gagn af hvíldartíma yfir daginn, þó þau sofni ekki.

Í leikskólanum hefst hvíld að loknum hádegisverði. Á yngri deildum fara öll börn í hvíld, hvort sem þau sofa eða liggja og eiga rólega stund með kennurum. Á eldri deildum fara börnin í rólega stund í litlum hópum s.s. kyrrðarstund, sögustund eða slökun.

Viðmið um svefnþörf:

2-4 ára barna er 11-13 klst. á sólarhring

5-16 ára 9-11 klst. á sólarhring.

Kennarar fylgjast með svefni yngstu barnanna og lengd hans er skráð daglega í leikskólakerfið Karellen. Þannig fá foreldrar nauðsynlegar upplýsingar sem gera þeim kleift að gæta þess að barnið þeirra fái svefnþörf sinni fullnægt.

Flest öll börn eru í leikskólanum stærstan hluta vökutíma síns 5 daga vikunnar þar sem eru mörg börn saman komin að leika og læra. Við þær aðstæður skapast meiri erill í dagsins önn en heima og því nauðsynlegt fyrir börnin að hvílast og endurnæra huga og líkama. Vel sofið og úthvílt barn er ánægt, lífsglatt og tilbúið til að takast á við alla þætti leikskólastarfsins með glöðu geði.

Upplýsingar eru unnar úr bókinni Heilsustefnan, úr Heilsubók barnsins og leiðbeiningum frá Betri svefn- fræðsluvefur um svefn og svefnvenjur https://www.betrisvefn.is/

© 2016 - Karellen