Heilsuleikskólinn Krókur fékk viðurkenningu Landverndar um að vera Skóli á grænni grein árið 2006. Á 7 ára afmæli leikskólans 5. febrúar árið 2008 fengum við að flagga Grænfánanum sem er alþjóðleg viðurkenning fyrir árangursríka fræðslu í umhverfismálum og náttúruvernd í fyrsta sinn.

Skólar á grænni grein (Eco-Schools) eru alþjóðlegt verkefni sem menntar milljónir nemenda í 67 löndum víðsvegar um heim í sjálfbærni og umhverfisvernd. Verkefnið byggir á lýðræðismenntun og getu til aðgerða.

Skólar á grænni grein fylgja sjö skrefa ferli

Umhverfissáttmáli Heilsuleikskólans Króks

Umhverfismál og verndun náttúrunnar eru mikilvæg í nútíma samfélagi því við eigum bara eina jörð og verðum að ganga vel um hana. Með umhverfisstefnunni okkar viljum við sýna gott fordæmi og kenna börnunum að þau geta haft jákvæð áhrif á umhverfi sitt. Þannig munum við hafa áhrif á að komandi kynslóðir læri að umgangast náttúruna af virðingu.

Mikilvægt er að börn upplifi náttúruna af eigin raun og læri að njóta hennar sér til yndisauka. Í leikskólanum er stuðlað að virðingu barnanna fyrir náttúrunni og náttúruvernd og þeim séð fyrir fjölbreyttum möguleikum á að kynnast henni, veðrinu og árstíðunum í fjölbreytileika sínum.

Markmið

  • Að við lærum að þekkja nánasta umhverfi og bera virðingu fyrir náttúrunni og umhverfinu í heild sinni.
  • Að vernda umhverfið og náttúruna með því að bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.
  • Að bera ábyrgð á meðferð á úrgangi sem frá okkur fer.
  • Að flokkun og endurvinnsla verði sjálfsagður hlutur í leikskólanum.
  • Að kynnast ræktunarferli með því að rækta grænmeti, jurtir og blóm.

Umhverfislagið

Vetur, sumar, vor og haust, hér er fjörið endalaust.

Við flokkum og nýtum allt ruslið hér, og flest í græna tunnu fer.

Fernur skolum og pressum þær, þó vatnið sullist niður á tær.

Því við elskum okkar móðir jörð, og ætlum að standa um hana vörð.

Lag „út um mó inn í skóg“Texti:Harpa Þórðardóttir.


Grænfánaskýrsla 2022

Grænfánaskýrsla 2017


© 2016 - Karellen