Það hefur ávallt verið eitt af aðalmarkmiðum skólans að vinna að andlegri og líkamlegri heilsueflingu allra í skólasamfélaginu með áherslu á velferð og vellíðan. Árið 2005 ákvað stjórnunarteymi Króks að þróa sérstaka samskiptastefnu fyrir skólann með það að markmiði að skapa jákvæða og uppbyggjandi skólamenningu, sem er undirstaða velferðar í skólastarfi. Byrjað var á því að skoða ýmsar samskiptastefnur eins og Uppbyggingarstefnuna og Lífsleikni í leikskóla en ákveðið í kjölfarið að móta eigin stefnu. Með því töldum við að betur tækist til við að innleiða þau vinnubrögð sem við lögðum til grundvallar,sem var að kenna börnunum að róa sig í dagsins önn og sýna umhyggju umfram allt. Það hefur gengið eftir því síðan stefnan var mótuð hefur hún verið notuð markvisst ásamt því að vera þróuð til hins betra með ýmsum hætti. Síðasta viðbótin var þróunarverkefni í núvitund, Hér og nú sem var styrkt af Sprotasjóði. Samskiptastefnan fékk nafnið Rósemd og umhyggja og byggir á aðferðum sem finna má í jógafræðum, núvitund, jákvæðri sálfræði og umhyggju. Unnið er með fjóra þætti í stefnunni sem eru: Virðing og jákvæð viðhorf; Samkennd og hjálpsemi; Innri ró og vellíðan; Sjálfstæði og jákvæð sjálfsmynd. Þjálfun kennara er lykilatriði í að framfylgja stefnu sem þessari og eru því haldin námskeið og/eða fyrirlestrar á hverju skólaári.

Rósemd

Rósemd er það sama og að vera rósamur sem vísar til þess að vera í góðu jafnvægi og afslappaður. Orðið felur í sér að slaka á spennu, sýna styrk, vera yfirvegaður og seinþreyttur til vandræða. Í leikskólum er nauðsynlegt að börn skynji ró og friðsæld í umhverfinu. Andstæða hraðans er ró og andstaða streitunnar slökun og markviss slökun í leikskóla getur stuðlað að aukinni vellíðan nemenda og meiri ró og friðsæld í umhverfinu. Núvitund er náskyld rósemd og er talin vera góð aðferð til að róa hugann, takast á við tilfinningar, minnka streitu, auka einbeitingu og vellíðan bæði nemenda og kennara. Sýnt hefur verið fram á að núvitund í skólastarfi er góð leið til að viðhalda góðri andlegri og líkamlegri heilsu barna og hjálpar þeim að tileinka sér nám.

Umhyggja

Umhyggja merkir að bera umhyggju fyrir einhverjum og að láta sér annt um velferð hans. Umhyggja er m.a. skilgreind sem nærgætni, tillitsemi, rækt og umönnun. Með því að sýna barni umhyggju kennum við því að sýna öðrum umhyggju. Fagleg umhyggja felst í viðhorfum, faglegri þekkingu, að vera til staðar, veita stuðning og að setja mörk. Kennarar í leikskóla þurfa að búa yfir faglegri færni þar sem umhyggja og nám eru samofin þannig að barnið læri um leið og annast er um það. Umhyggjan lýsir sér m.a. í tengslamyndun, virðingu, viðhorfum, hvatningu og er skilaboð um að barnið skiptir máli. Umhyggjan sem nemendur upplifa hjá kennaranum skiptir miklu um líðan þeirra og árangur í námi. Umhyggjan á að vera kjarni skólastarfsins og gengur þvert á þau hlutverk kennara að þroska og upplýsa. Virðing og umhyggja eru stoðir sterkrar sjálfsmyndar og undirtónn í því að móta réttlát og umhyggjusöm samfélög.

Markmið

Markmið samskiptastefnu Króks er að skapa andrúmsloft rósemdar og umhyggju með vinnubrögðum sem einkennast af virðingu og jákvæðum viðhorfum með áherslu á samkennd, hjálpsemi, vellíðan, innri ró, sjálfstæði og sterka sjálfsmynd.

Stefnt er að því að skapa jákvæða og uppbyggjandi skólamenningu þar sem starfsfólk temur sér kærleiksríkt samskipti við nemendur, sem er undirstaða vellíðunar og þar með hæfni til að tileinka sér nám.

Lögð er áhersla á að starfsfólk læri um, tileinki sér og miðli í samskiptum sínum við börn, foreldra og samstarfsfólks:

* Virðingu og jákvæð viðhorf

* Samkennd og hjálpsemi

* Innri ró og vellíðan

* Sjálfstæði og jákvæða sjálfsmynd

Því samskiptin eru ávallt á ábyrgð þeirra sem í skólanum starfa.© 2016 - Karellen