English Polskie

Að byrja í leikskóla er ný reynsla fyrir barnið og foreldra þess og er því mikilvægt að huga vel að hvernig staðið er að aðlöguninni. Nauðsynlegt er að gefa barninu nægan tíma í upphafi leikskólagöngunnar þannig að það öðlist öryggistilfinningu. Barnið þarf góðan tíma til þess að kynnast leikskólanum, nýju umhverfi, kennurunum og hinum börnunum. Á meðan á aðlöguninni stendur er mikilvægt að foreldrar kynnist kennurunum og því starfi sem fram fer í leikskólanum. Í aðlöguninni taka foreldrarvirkan þátt í starfinu með barni sínu og kennarar læra af þeim þær venjur og aðferðir sem barnið er vant. Með því er lagður góður grunnur að framtíðinni.

Til þess að ná þessum markmiðum höfum við sérstaka aðlögunaráætlun sem foreldrum er kynnt í upphafi leikskólagöngunnar.

Þegar börn flytja á milli deilda er það í höndum kennara og foreldra að sjá um að það gangi vel fyrir sig og er sérstök áætlun sem farið er eftir. Markmiðið er að börnin flytji aðeins einu sinni á milli þ.e. af yngri yfir á eldri deild.


Dvalarsamningur
Allir foreldrar skrifa undir dvalarsamning þegar barnið byrjar leikskólagöngu sína og biðjum við foreldra um að kynna sér ákvæði hans vel. Í honum er m.a. að finna upplýsingar um dvalartíma barnsins. Við viljum biðja foreldra um að fara ekki fram yfir þann tíma sem samið hefur verið um. Vinnutími starfsmanna er skipulagður með tilliti til dvalarsamninganna.


Að koma og fara
Þegar barnið kemur í leikskólann á að fylgja því inn á sína leikstofu og afhenda starfsmanni og þegar barnið er sótt er mikilvægt að láta starfsmenn vita. Mjög mikilvægt er að foreldrar kveðji barnið. Upplýsingatöflur í fataklefum leikskólans eru ætlaðar til að koma upplýsingum á framfæri við foreldra/forráðamenn. Fylgist vel með upplýsingatöflunni.


Veikindi og fjarvistir
Vinsamlegast látið okkur vita ef barnið kemur ekki í leikskólann vegna veikinda eða af öðrum ástæðum. Best er að barnið hafi náð fullum bata eftir veikindi svo þau geti tekið fullan þátt í starfsemi leikskólans. Við tökum ekki á móti börnum sem þurfa að vera inni vegna þess að þau eru alveg að verða veik. Börn eru smitberar á þeim tíma og geta því smitað önnur börn. Læknar hafa staðfest að börn verða ekki veik af því að vera úti í fersku lofti og að börnum með kvef verður ekki meint af því.


Óhöpp og slys
Börnin eru tryggð í leikskólanum. Tveir starfsmenn hafa yfirumsjón með öryggismálum barnanna. Ef slys eða óhöpp verða eru þau skráð í slysaskýrslur, sem eru síðan notaðar til að athuga hvort slysagildrur eru í leikskólanum eða á leiksvæðinu.



© 2016 - Karellen