Um Vináttuverkefnið

Vináttuverkefnið Blær er forvarnarefni sem er ætlað að stuðla að jákvæðum samskiptum, góðum skólabrag og koma í veg fyrir einelti. Markmið efnisins er að tryggja börnum umhverfi þar sem einelti nær ekki að þrífast. Það er á ábyrgð okkar fullorðna fólksins að búa börnunum þannig umhverfi og því er námsefni sem þetta góð viðbót við það starf sem unnið er í Heilsuleikskólanum Króki.

Markmiðið er að...

 • Koma í veg fyrir að jarðvegur skapist fyrir einelti
 • Tryggja að í hverjum barnahópi sé til staðar góður félagsandi, góð skólamenning og samkennd
 • Börnin eigi eitthvað sameiginlegt og að hver og einn geti alltaf reynst góður félagi
 • Tryggja að virðing sé borin fyrir margbreytileikanum
 • Vera góðar fyrirmyndir í orði og verki

Vináttuverkefnið er gefið út fyrir börn frá 0-8 ára og þrískipt eftir aldri barnanna. Það byggir á áströlsku efni, Better Buddies og er notað í mörgum löndum. Barnaheill – Save the Children á Íslandi framleiðir efnið og gefur út með góðfúslegu leyfi og í samstarfi við Red barnet- Save the Children og Mary Fonden í Danmörku, sem þróuðu ástralska efnið og gáfu út árið 2007. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur verið leiðarljós í allri þróun efnisins.

Námsefni leikskólans kemur í tveimur töskum, önnur fyrir yngri börn 0-3 ára og hin fyrir eldri börn 3-6 ára. Í töskunum er bangsinn Blær (stór bangsi) sem situr á svölunum sínum í Gjánni og annar sem fylgir töskunni og fer á milli deilda. Blær er táknmynd vináttunnar og samhyggðarinnar, og minnir okkur á gildin sem unnið er með. Við upphaf skólagöngu sinnar fær síðan hvert barn hjálparbangsann Blæ (lítill bangsi) sem er merktur barninu, á sinn stað í teppavasa á deildinni og barnið fær þegar það hættir. Litli Blær er til að nýta í kennslu og sem huggun og hvatning í dagsins önn fyrir barnið.

Í töskunum eru einnig verkefnahefti, fróðleikur og leiðbeiningar ásamt bókum og söngvum um gildi vináttu sem kennarar styðjast við í vinnu með börnunum.

Gildi vináttunnar eru:

Umburðarlyndi, að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.

Virðing, að viðurkenna og virða alla í hópnum og gildi margbreytileikans, að vera öllum góður félagi.

Umhyggja, að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.

Hugrekki, að hafa hugrekki til að bregðast við órétti og að geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti sem aðrir eru beittir.

Árangur af notkun Vináttuverkefnisins

Rannsóknir við Háskólann í Hróarskeldu og greiningarstofnanirnar Wilke og Oxford Research hafa sýnt fram á fjölmarga kosti Vináttu:

 • Umhyggjusamari börn
  • Börnin verða umhyggjusamari og færari um að taka tillit hvert til annars í félagslegum samskiptum þegar þau umgangast fullorðið fólk sem kann að virða þau og sýna þeim umhyggju.
 • Aukin þekking og meðvitund
  • Kennarar og foreldrar verða meðvitaðri um uppeldislegt gildi þess að kenna samskipti og um mikilvægi þess að stuðla að vellíðan og fyrirbyggja einelti.
 • Börn öðlast kjark til að skipta sér af
  • Börnin verða betri í að hughreysta félaga sína og að hafa frumkvæði að því að grípa inn í eitthvað sem áður var álitið alfarið í verkahring hinna fullorðnu. Þau öðlast hugrekki til að skipta sér af ef þau verða vitni að ranglæti.
 • Auka hæfileika barnanna til að setja mörk
  • Börnin læra að segja „stopp“, þegar farið er yfir mörk þeirra. Stundum taka börnin sjálf ábyrgð á að miðla málum þegar upp kemur ósætti, hvort sem einhver fullorðinn er nálægur eða ekki.
 • Starfsfólk fær nýtt sjónarhorn
  • Fjölmargt starfsfólk telur að með Vináttu hafi það öðlast nýtt og lærdómsríkt sjónarhorn á leikskólastarfið og að verkefnið í heild stuðli að því að kveikja mikilvæga umræðu meðal starfsfólks.

Nýleg rannsókn sýnir að því lengur sem efnið er notað, því meiri árangur og að í þeim skólum sem unnið er með verkefnið sýna börnin meiri samhygð. Félagsleg og tilfinningaleg færni barna jókst meira þar sem unnið var með efnið og að því oftar sem unnið er með efnið því meiri árangri skilar það sér.

Það er Lionsklúbbur Grindavíkur sem gefur börnunum á Króki bangsana sem hluta af forvarnarverkefnum klúbbsins.

Allir sem hér eru við leik og störf eru umburðarlyndir, sýna umhyggju og bera virðingu fyrir margbreytileikanum. Hér læra börn að setja sér mörk, vera hugrökk og bregðast við órétti sem aðrir eru beittir. Með vináttukveðju, ykkar Blær og starfsfólk Heilsuleikskólans Króks.


© 2016 - Karellen