Heilsuleikskólinn Krókur hefur reglulega tekið þátt í þróunarverkefnum og hér má sá skýrslur frá þeim.


Bio-Trio 2, Unnið 2020-2023

Þróunarverkefni styrkt af Erasmus+. Skólar ehf. eru þátttakendur í Erasmus+ verkefni sem nefnist Bio-Trio 2 og er þetta framhaldsverkefni í samstarfi við stofnanir í Ungverjalandi, Slóvakíu og Hreyfiland á Íslandi. Útkoma af fyrsta verkefninu var smábók fyrir foreldra um þroskaferil barna og snemmtæka íhlutun. Þrír kennarar/stjórnendur frá Skólum taka þátt að þessu sinni og eru þeir frá Heilsuleikskólunum Kór, Króki í Grindavík og Skógarás í Reykjanesbæ. Alls eru um 15 þátttakendur frá þessum þremur löndum. Markmið þessa verkefnis er að læra aðferðir til að styrkja samskipti á milli foreldra, barna og fagfólks og þar kemur nafnið Bio-Trio. Þátttakendur læra hvernig á að vera með vinnustofur til að fræða foreldra og annað fagfólk sem vinnur með börnum og margt fleira. Sjá https://biotrio.org/


BE-CHILD: Unnið 2019-2023

Þróunarverkefni styrkt af menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+. Verkefnið ber heitið Félagsleg hæfni leikskólabarna sem lykill að fullgildri þátttöku (BE-CHILD) og snýst um samstarf háskóla, rannsóknastofnana, leikskóla og kennara um þróun náms og kennslu í félagsfærni barna á aldrinum 0-6 ára. Háskóli Íslands leiðir verkefnið en auk Íslands eru Ítalía, Rúmenía, Búlgaría, Tékkland og Eistland. Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræði ungra barna, stýrir verkefninu fyrir hönd Háskólans en auk hennar vinnur Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, lektor í leikskólafræði, að verkefninu. Kannaðir verða starfshættir í leikskólum og verða niðurstöðurnar nýttar til að þróa náms- og kennsluefni í félagsfærni fyrir leikskólakennara, sjá https://bechild.hi.is/.


Komdu út. Unnið 2018-2019.

Komdu út skýrsla

Þróunarverkefni styrkt af Sprotasjóði. Markmið verkefnisins er að stuðla að jákvæðu og uppbyggjandi foreldrasamstarfi með velferð og vellíðan barna og fjölskyldna þeirra að leiðarljósi; að kynna útivist og samveru í náttúrunni sem valkost til að minnka streitu og auka vellíðan allra í fjölskyldunni; bjóða foreldrum að taka þátt í útinámi með börnum sínum á skólatíma og gefa þeim hugmyndir að útivist og samveru með börnum sínum í frítímum og að kynna fyrir fjölskyldum margþætta möguleika sem nánasta umhverfi bæjarins hefur upp á að bjóða og hvað er hægt að aðhafast þar.


Bio-Trio, 2018-2019.

Skólaárið 2018-2019 var Krókur þátttakandi í Erasmus+ verkefni ásamt tveimur skólum sem Skólar ehf reka. Verkefnið heitir Bio-Trio og er samstarf 6 stofnana frá Íslandi, Ungverjalandi, Rúmeníu og Slóvakíu. Markmið með verkefninu var að efla kennara í samskiptum og afrakstur verkefnisins var meðal annars bæklingur um snemmtæka íhlutun „Þroski barnsins: skref fyrir skref“, sjá á eftirfarandi vefslóð: https://issuu.com/zitamajor


BHRG. Unnið 2016-2018.

2016-2018 var Krókur þátttakandi í Erasmus+ verkefni ásamt fjórum skólum sem Skólar ehf reka. Verkefnið heitir Early intervention through physical activity and the BHRG model to promote future wellbeing of children, á Íslensku Um tengsl hreyfingar og þroska heila og taugakerfis með áherslu á snemmtæka íhlutun. Verkefninu var stjórnað af BHRG sem er Ungversk stofnun. Stofnunin vinnur með börnum á aldrinum 3 mánaða til 14 ára með þroskafrávik, námserfiðleika, hegðunarvanda eða skaða eftir slys og/eða sjúkdóma. Markmið verkefnisins var að mennta kennara til að framkvæma mat þar sem skoðaður er tauga-, skyn og hreyfiþroski barna, greina áskoranir og nýta markvissa hreyfiörvun sem snemmtæka íhlutun til að stuðla að bættum heila- og taugaþroska barna.

Heimasíða BHRG í Ungverjalandi: https://bhrg.hu/


Children health improvement by integrating 5 elements of S. Kneipp. Unnið 2016-2017.

Þróunarverkefni sem styrkt er af Nordplus junior. Verkefninu er ætlað að innleiða 5 þætti heilsueflingar samkvæmt kenningum Sebastian Kneipp sem taldi að hreyfing, næring, jafnvægi, vatn og jurtir væru þættir sem stuðla að almennri heilsu og fyrirbyggja jafnvel sjúkdóma. Verkefnið er unnið í samstarfi við fimm aðrar þjóðir; Litháen, Lettland, Finnland, Danmörk og Eistland, sem stjórnar verkefninu. Verkefnið fellur vel að heilsustefnu skólans og var því auðvelt að aðlaga kenningar S.Kneipp við það sem verið er að gera í heilsueflingu. Viðbótin við okkar starfshætti voru vatn og jurtir og var áhugavert að innleiða ýmsar aðferðir tengdar þeim þáttum eins og t.d. vatnsnudd með þvottapokum, lauga líkamsparta úr köldu vatni og drekka jurtate. Þar sem við erum með mjög vel skilgreinda stefnu í hinum þáttunum þremur getum við miðlað til hinna skólanna auk þess að bæta við nýjungum. Í verkefninu er lögð áhersla á þátttöku foreldra í heilsusamfélaginu sem er mjög jákvætt.

Bloggsíða tengd verkefninu er á slóðinni: http://5elementsofkneipp.blogspot.com/


Development of children's learning and influence in a sustainable perspective (Job shadowing). Unnið 2016-2017.

Verkefni styrkt af ERASMUS+. Samstarfsverkefni við Infjärdens förskoleområde í Pideaa þar sem kennarar í leikskóla komu í starfskynningu í Heilsuleikskólann Krók í eina viku. Hulda Jóhannsdóttir leikskólastjóri hélt utan um dagskrá fyrir kennarana þar sem þeir kynntust starfi Heilsuleikskólans Króks sem og annarra skólastofnana.


Hér og nú. Innleiðing núvitundar í leik-og grunnskóla Grindavíkur. Unnið 2016-2017.

Hér og nú skýrsla

Þróunarverkefni styrkt af Forvarnarteymi Grindavíkur. Markmið verkefnisins er að skýra hlutverk, sýna lausnirnar og að fólk noti mismunandi verkefni eftir aðstæðum. Halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið í verkefninu HÉR OG NÚ og útvíkka það enn frekar með því að innleiða núvitund í leikskólana tvo, upp í miðstig grunnskólans og heimili nemenda. Markmið verkefnisins HÉR OG NÚ er að efla tilfinningalegt jafnvægi, jákvæða félagslega hegðun og vellíðan bæði nemenda og kennara með markvissum núvitundar æfingum.


Hér og nú. Núvitund sem leið til að efla tilfinningalegt jafnvægi, jákvæða hegðun og vellíðan nemenda og kennara í leik- og grunnskóla. Unnið 2015-2016:

http://www.sprotasjodur.is/static/files/heilsuleik...

Þróunarverkefni styrkt af Sprotasjóði. Markmið verkefnisins er að innleiða núvitund í leikskóla og yngstu bekki grunnskóla með það að markmiði að efla tilfinningalegt jafnvægi, jákvæða félagslega hegðun og vellíðan bæði nemenda og kennara.


Snemma beygist krókurinn" Úr stöðluðum kynjahlutverkum í kynjajafnrétti. Unnið 2014-2015:

Snemma beygist krókurinn skýrsla

Þróunarverkefni styrkt af Sprotasjóði. Markmiðið er því að gera starfsfólk leikskólans betur í stakk búið til að greina kynjamismun í orðræðu, námsaðferðum og -umhverfi leikskólans með öflugri fræðslu um stöðu kynjanna og hugmyndafræði um kyn, kyngervi og kynvitund. Að starfsfólki gefist tækifæri til að endurskoða viðteknar venjur og staðalmyndir kynjanna, setja upp kynjagleraugun og samþætta kynjasjónarmið í náms- og starfsumhverfi skólans. Með breyttum hugsanahætti og öflugri fræðslu starfsfólks er einnig markmiðið að afbyggja staðlaðar hugmyndir barnanna um kynin, opna fyrir þeim fleiri möguleika sem kynjahlutverk eiga það til að útiloka og um leið jafna stöðu stelpna og stráka. Sú leikni sem börn öðlast í markvissri jafnréttiskennslu mun undirbúa þau fyrir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi.


What do we find under our feet? Unnið 2014-2015.

Verkefni sem styrkt var af eTWINNING, Rafrænt skólastarf og var unnið í samvinnu við leikskólann Böle í Piteaa. Á Íslensku heitir verkefnið Hvað finnum við undir fótunum okkar? Markmið er að börnin verði meðvituð um hvað sé að finna í náttúrunni og uppgötva mismunandi náttúru á milli landanna. Verkefnin voru unnin í útinámsferðum og inni í skólanum þar sem fram fór uppgötvunarnám þegar náttúran var rannsökuð. Umræður um uppgötvunina fóru fram í litlum hópum og samverustund og lögð áhersla á að láta forvitni og sköpunarkraftinn njóta sín. Fengum við viðurkenningu fyrir verkefnið Hvað finnum við undir fótum okkar? sem við erum mjög stolt af. Hér má sjá einblöðung sem gerður var um verkefnið í tilefni af verðlaunaafhendingunni og hér er frétt sem kom á heimasíðu Grindavíkurbæjar í tilefni af verðlaununum.


Ný hugsun í átt að betri framtíð – Námsmat í nýjum búningi. Unnið 2012-2013: http://www.sprotasjodur.is/static/files/skolaskrif...

Þróunarverkefni styrkt af Sprotasjóði: Tilgangur verkefnisins er að efla samstarf og samráð milli skóla í Grindavík og skapa sameiginlegan grundvöll í samræðu og hugmyndafræði varðandi menntun innan sveitarfélagsins þannig að það verði til sameiginleg sýn á nám og líðan barna þó svo að sérstaða hvers skóla sé virt.


GETA. Menntun til sjálfbærrar þróunar: Af reynslu átta íslenskra skóla 2008–2009: http://skrif.hi.is/geta/files/2008/05/reynsla_isle...

Rannsóknarverkefni sem skólinn tók þátt í. Markmið verkefnisins er annars vegar að efla rannsóknir á menntun til sjálfbærni og hins vegar að þróa leiðir til að efla slíka menntun á Íslandi. Rannsóknar- og þróunarhópurinn GETA er hópur háskólakennara, doktorsnema og meistaranema við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og kennaradeild Háskólann á Akureyri.


© 2016 - Karellen