news

Menningarmót Króks

01. 06. 2022

Fimmtudaginn 5. maí var Menningarmót hjá okkur hér á Króki. Búið var að vinna með hugtakið menning með börnunum í Stjörnuhópi. Á menningarmótinu fengu þau tækifæri til að varpa ljósi á það sem skiptir þau máli, á hverju þau hafa áhuga og fengu tækifæri til að kynna sína persónulegu menningu.

Börnin komu með nokkra hluti að heiman sem þau síðan stilltu upp á sitt svæði. Börnin byrjuðu á því að syngja lagið „við erum vinir“ sem er lag frá Blæ og fóru svo á sitt svæði þar sem gestir fengu tækifæri til að spjalla við börnin um menningu barnanna.

Þetta var virkilega skemmtilegt verkefni og sérstaklega gaman að sjá hvað börnin voru stolt þegar þau kynntu sína menningu og ánægjulegt að fá loksins tækifæri til að bjóða foreldrum og öðrum gestum á viðburð sem hefur legið niðri síðastliðin tvö ár.

Hugmyndin af mótinu kemur frá verkefninu Menningarmót "Fljúgandi teppi" sem Kristín R. Vilhjálmsdóttir er hugmyndasmiður af. Sjá nánar um verkefnið á tungumalatorg.is/menningarmot

Markmið með verkefninu er:

Að varpa ljósi á styrkleika barnanna og fjölbreytta menningarheima þeirra.

Að skapa hvetjandi umhverfi, þar sem börn, foreldrar og starfsfólk hittast og kynnast menningu og áhugamálum hvers annars.

Að stuðla að gagnkvæmri virðingu og skilningi.

Að skapa vettvang þar sem börnin sýna hvað er líkt og ólíkt í menningu okkar og áhugamálum.

Að einstaklingar verði meðvitaðir um gildi eigin menningar og upplifi um leið þau jákvæðu áhrif sem það hefur á sjálfsmyndina að veita öðrum innsýn inn í sinn heim.

Að börnin geri sér ljóst að fjölbreytt menning, áhugasvið og ólík tungumál mynda mikilvægt menningarlegt litróf í samfélaginu.


© 2016 - Karellen