news

Sköpun í daglegu starfi

21. 02. 2022

Börn eru sífellt að skapa og sköpun er mjög víðtæk. Hún er ekki bara að dansa, syngja eða föndra þó svo að oft tengi fólk hana við list eða listgreinar. Börnin skapa í daglegu starfi í gegnum t.d. leikinn og læra mikið á því að láta hugmyndaflugið njóta sín og er sköpun því mjög mikilvæg námsgrein.

Í Aðalnámskrá leikskóla 2011 segir „Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Sköpun er að sjá fyrir það óorðna og framkvæma það. Sköpun byggist á forvitni, áskorun, spennu og leit. Glíman við viðfangsefnið og það að finna lausn getur verið umbun sköpunarinnar í sjálfu sér“.

Eins og segir hér að ofan þá er það ekki útkoman sem skiptir máli heldur vinnan á bakvið hana því þar læra börnin. Þau gera eitthvað nýtt og öðruvísi, eru forvitin og þurfa að vera útsjónarsöm. Sköpunargleðin fær að njóta sín og því er leikurinn góð leið fyrir börn til að skapa.

Haustið 2020 var útbúinn fyrir okkur Kubbur. Kubbur er viðargrind eða kassi þar sem börnin geta leikið sér inní. Á tveggja vikna tímabili breytist þema kubbsins og skiptast deildarnar á að finna þema og útbúa kubbinn. Þá er hann skreyttur og fundið til leikefni inní hann. Í Kubbnum hefur verið kubba-, umferðar-, fiska- og draugaþema svo fátt eitt sé nefnt.Kubburinn er staðsettur í Gjánni okkar þar sem öll börnin í leikskólanum geta notið hans. Kubbur er frábær staður þar sem sköpun barnanna fær að njóta sín.© 2016 - Karellen